Fréttir

Fréttir af starfsemi félagsins.

Icelandic Roots – námskeið

Icelandic Roots – námskeið

Eflaust er ættfræðvefurinn Icelandic Roots félagsmönnum Ættfræðifélagsins að góðu kunnur. Sunna Furstenau, höfundur og hugmyndafræðingur vefjarins, verður hér á landi í næsta mánuði og heldur námskeið um vefinn og notkun hans ásamt nokkrum íslenskum aðstoðarkennurum sem þekkja vefinn vel og aðstoða þátttakendur á námskeiðinu eftir þörfum.

Mörg þúsund Kanada- og Bandaríkjamenn af íslenskum ættum búa í Norður-Ameríku. Á þessu námskeiði geta þátttakendur fundið út hvort þeir eigi ættingja í Ameríku og hvernig mögulegt er að komast í samband við þá.

Sunna Olafson Furstenau er fædd og uppalin í Íslendingabyggðinni Eyford í Thingvalla sveit. Þar voru Íslendingarnir stoltir af arfleið sinni og skiluðu siðum og venjum gamla landsins til afkomenda sinna. Sunna hefur því alla tíð verið mjög meðvituð um íslenska arfleifð sína.

Ástæða er til að hvetja alla áhugasama um að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Námskeiðið er haldið í Endurmenntun Háskóla Íslands, Dunhaga 7, dagana 10., 11. og 12. apríl 2018 og fer að hluta til fram á ensku. Nánari upplýsingar er að finna á vef Endurmenntunar.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Ættfræði
Aðalfundur Ættfræðifélagsins

Aðalfundur Ættfræðifélagsins

Aðalfundur Ættfræðifélagsins fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 22. febrúar 2018 og hófst kl 20:00.

Formaður félagsins, Benedikt Jónsson, flutti skýrslu stjórnar og Kristinn Kristjánsson gjaldkeri kynnti reikninga félagsins á 73. starfsári félagsins, árinu 2017. Hagnaður félagsins jókst úr 20.000 kr í 157.580 kr á árinu þannig að hagur félagsins vænkaðist heldur. Mest munaði þar um breytingu á húsnæði sem fól í sér lægri leigu.

Sitjandi stjórn var endurkjörin og hana skipa, auk formanns:

  • Arnbjörn Jóhannesson
  • Áslaug Herdís Úlfsdóttir
  • Eiríkur Þór Einarsson
  • Kristinn Kristjánsson

Varamenn:

  • Anna Guðrún Hafsteinsdóttir
  • Hörður Einarsson

Stjórnin skiptir með sér verkum á næsta stjórnarfundi.

Olgeir Möller og Ólafur Pálsson voru endurkjörnir endurskoðendur reikninga.

Formaður kynnti nýjan vef félagsins og mæltist hann vel fyrir.

Þá kynnti formaður nýjan skjalaskrárvef Þjóðskjalasafns Íslands, en þar er að finna myndir af öllum sóknarmannatölum og prestsþjónustubókum í safninu, auk fleiri gagna.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Velkomin á nýjan vef Ættfræðifélagsins

Velkomin á nýjan vef Ættfræðifélagsins

Ný vefur Ættfræðifélagsins opnar í dag, en hann hefur verið í smíðum að undanförnu. Ekki er þó um fullbúna smíð að ræða og eru góðfúsir lesendur beðnir velvirðingar á hnökrum sem við reynum að lagfæra eins fljótt og framast er unnt.

Á þessum tímamótum flutti Ættfræðifélagið hýsingu og tölvupóst frá Hringiðunni til Hýsingar.is / TACTICA ehf.

Efni á hinum nýja vef er ekki ýkja frábrugðið því sem var á gamla Joomla vefnum, en meðal nýjunga má nefna viðburðadagatal. Stefnt var að því að hafa vefinn einfaldan í uppsetningu og auðlæsilegan, bæði á tölvuskjám og í snjalltækjum og símum.

Vefurinn er gerður í vefumsjónarkerfinu WordPress sem er vinsælasta kerfi sinnar tegundar í heiminum.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir
Janúarfundur 2018

Janúarfundur 2018

Fyrsti félagsfundur ársins 2018 fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. janúar. Helga Hlín Bjarnadóttir sagnfræðingur var fyrirlesari kvöldsins og flutti snjalla tölu um Framfarastofnunina og Bréflega félagið í Breiðafirði.

Driffjöðurin á bak við stofnun þessara félaga var menningarfrömuðurinn Ólafur Sívertsen, bóndi, prestur og prófastur í Flatey á Breiðafirði. Framfarastofnunin var upphaflega bókasafn, en lét fljótlega til sín taka á fleiri sviðum og beitti sér fyrir upplýsingu og menntun í Breiðafjarðareyjum og víðar. Ásamt Ólafi var tengdasonur hans, Guðmundur Einarsson prestur og prófastur á Kvennabrekku í Miðdölum og á Breiðabólsstað á Skógarströnd, mjög virkur í Bréflega félaginu. Afkomandi þessara ágætu manna er núverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 30. nóvember 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Benedikt Jónsson, formaður Ættfræðifélagsins, flytur erindi um Djúpavík á Ströndum.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er af Stóra-Bragga á Djúpavík. Ljósmynd: Benedikt Jónsson.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 26. október 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Eyþór Jóvinsson sýnir stuttmynd sína um ættfræðing og spjallar við fundarmenn. Myndin er aðallega tekin á Flateyri við Önundarfjörð.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er frá Flateyri. Wikimedia Commons/Christian Bickel.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Septemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Septemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 28. september 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík.

Sigrún Magnúsdóttir, fv. borgarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra, heldur erindi um Hólabiskups dætur.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir.

 

Gömul teikning af Hólum í Hjaltadal. Wikimedia Commons/Nordiske Billeder, fjerde bind. København 1870.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Vorganga 2017

Vorganga 2017

Hin árlega vorganga verður um Laugarnes laugardaginn 13. maí 2017. Leiðsögumaður er Guðfinna Ragnarsdóttir jarðfræðingur og ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins. Hún lýsir Laugarnesinu svona:

„Laugarnesið geymir sögu atburða og örlaga, biskupa og valda, mennta og menningar, stríðs og átaka, hernáms og fátæktar, sjúkdóma og erfiðleika, lista og listamanna og inn á milli, þótt ekki fari hátt, sögu alþýðunnar sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Þar er einnig að finna einu ósnortnu fjöruna á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi.“

Áhugasamir göngumenn mæta við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar klukkan 11:00.

Veðurspáin er ágæt, 11°C hiti, alskýjað og gola, 6 m/sek.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Göngur, Viðburðir
Aprílfundur Ættfræðifélagsins 2017

Aprílfundur Ættfræðifélagsins 2017

Aprílfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 27. apríl 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík.

Bernharð Haraldsson, kennari og fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, heldur erindi um Mannlíf og ábúendur í Skriðuhreppi hinum forna.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir!

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Marsfundur Ættfræðifélagsins 2017

Marsfundur Ættfræðifélagsins 2017

Marsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn  fimmtudaginn 30. mars 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík.

Benedikt Jónsson, nýkjörinn formaður félagsins og starfsmaður Þjóðskjalasafns, segir frá manntölum og manntalsvef safnsins.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir!

 

Mynd úr Manntalinu 1703 af upphafi fólkstals í Skógarstrandarhreppi í Snæfellsnessýslu.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir