Fundir

Tilkynningar um fundi.

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi

Á félagsfundi fimmtudaginn 28. október flytur Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur og fyrrv. ráðherra, erindi um greifynjuna Þuríði Marquis de Grimaldi. Þuríður fæddist þann 30. október árið 1891 að Garðhúsum við Bakkastíg. Hún var dóttir hjónanna Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónssonar. Þuríður þótti snemma efnileg og hneigð til bókar. Amma hennar, Þuríður Eyjólfsdóttir var sögð stórgáfuð og skörungur. Sumarið 1921, þegar Þuríður stóð á þrítugu, kynntist hún markgreifanum Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d’Antibes et de Cagne, afsprengi einnar elstu konungsættar í Evrópu. Í október fyrir 100 árum var haldið brúðkaup þeirra í Reykjavík.

Fundurinn hefst kl. 16:00 í húsi Þjóðskjalasafns að Laugavegi 162, 3. hæð í Reykjavik. Athugið breyttan fundartíma, kl. 16:00.

Höfundur: aettadmin in Fundir
Félagsfundi þann 29. apríl frestað

Félagsfundi þann 29. apríl frestað

Enn og aftur grípur Covid-19 í taumana og því verðum við að fresta áætluðum félagsfundi sem fram átti að fara fimmtudaginn 29. apríl.

Vegna COVID-19 veirunnar hefur stjórn Ættfræðifélagsins ákveðið að slá á frest öllum fundarhöldum og öðrum viðburðum á vegum félagsins til hausts. Þetta þýðir að það verður enginn aprílfundur eins og búið var að auglýsa. Þó munum við reyna að hafa gönguferðina sem auglýst er 15. maí. Næsti viðburður verður auglýstur með tölvupósti og tilkynningum á vef félagsins og Facebooksíðu þess þegar ljóst er að engin hætta er lengur fyrir hendi.

Vinsamlegast látið þetta berast til allra sem þið teljið að þurfi að vita af þessu og hafa ekki aðgang að tölvupósti eða vefmiðlum.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir
Aðalfundur 2021

Aðalfundur 2021

Aðalfundur Ættfræðifélagsins 2021 fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. febrúar 2021 og hófst kl 20:00.

Formaður félagsins setti fundinn og skipaði Eirík Þ. Einarsson fundarstjóra og Björn Jónsson fundarritara.

Formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir 75. starfsár félagsins, árið 2020. Í máli hans kom fram að heimsfaraldurinn, COVID-19 hafði leikið starfsemi félagsins grátt. Auk aðalfundar, tókst aðeins að halda einn félagsfund, en venjulega eru þeir sex. Þá féll vorganga félagsins einnig niður af sömu ástæðum.

Sem fyrr eru félagsfundir og útgáfa fréttabréfs meginstoðir í starfsemi félagsins, en útgáfa fréttabréfsins raskaðist ekki og komu út fjögur tölublöð á árinu 2020, eins og verið hefur síðustu ár.

Gjaldkeri félagsins, Helga Margrét Reinharðsdóttir, gerði grein fyrir reikningum félagsins. Greiddum félagsgjöldum fækkaði um 58 frá árinu 2019, eða um 350 þúsund krónur. Þrátt fyrir að útgjöld félagsins hafi lækkað um tæp 8% frá fyrra ári, þá dugði það ekki til að forða tapi upp á rúmlega 205 þúsund krónur.

Þá var gengið til kosninga í stjórn félagins. Úr stjórn áttu að ganga:

Benedikt Jónsson formaður og
Áslaug Herdís Úlfsdóttir

Stjórnin gerði tillögu um að Eiríkur Þór Einarsson yrði nýr formaður félagsins og var það samþykkt einróma. Þá gerði stjórnin tillögu um að Guðfinna S. Ragnarsdóttir og Magnús Grímsson kæmu inn í stjórn í stað Áslaugar og Benedikts. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Stjórnin skiptir með sér verkum á næsta stjórnarfundi.

Skoðunarmenn reikninga verða áfram Ólaf Pálsson og Ágúst Jónatansson.

Samþykkt að félagsgjald yrði hækkað í 6.500 krónur.

Guðfinna S. Ragnarsdóttir ritstjóri fréttabréfsins tók til máls undir liðnum önnur mál og þakkaði fráfarandi formanni vel unnin störf. Nýkjörinn formaður, Eiríkur Þór Einarsson, tók undir það. Frárandi formaður, Benedikt Jónsson, þakkaði fyrir sig.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir
Félagsfundi í janúar 2021 frestað

Félagsfundi í janúar 2021 frestað

Félagsfundi, sem halda átti 28. janúar 2021 er frestað af sóttvarnarástæðum.

Stefnt er að því að halda aðalfund 25. febrúar nk., nema sóttvarnarástæður hamli.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir
Enginn félagsfundur í nóvember

Enginn félagsfundur í nóvember

Eins og kunnugt er hafa ekki verið aðstæður til samkomuhalds undanfarna mánuði. Ástæður þessa eru tvær. Í fyrsta lagi hafa verið í gangi takmarkanir á samkomuhaldi vegna COVID-19 og í öðru lagi hefur fundarsalurinn í Þjóðskjalasafni, sem við höfum notað, verið lokaður þar sem hann hefur verið notaður sem bráðabirgðalestrarsalur á meðan viðgerð á aðallestrarsalnum hefur farið fram. Viðgerðarframkvæmdir hafa tafist verulega vegna COVID-19 og þannig tengjast báðar ástæðurnar. Nú er ljóst að ekki verður neinn félagsfundur í nóvember af áðurnefndum ástæðum og þar með blasir við að þessu ári lýkur með því að aðeins einn félagsfundur var haldinn, í janúar, og svo var aðalfundur í febrúar. Við vonum að nýtt ár verði okkur hagfelldara í þessu efni.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir
Enginn félagsfundur í október

Enginn félagsfundur í október

Ekki verður hægt að halda félagsfund í október vegna þess að fundarsalurinn sem við höfum venjulega notað er ekki tiltækur. Auk þess er heilbrigðisástandið í þjóðfélaginu þannig að ekki þykir ástæða til samkomuhalds. Á þessari stundu er óvíst með félagsfund í nóvember af sömu ástæðum. Nánar verður tilkynnt um það síðar.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Enginn félagsfundur í september

Enginn félagsfundur í september

Ekki verður af félagsfundi í september vegna þess að fundarsalurinn sem við höfum venjulega notað er ekki tiltækur. Hins vegar er stefnt að félagsfundi 29. október n.k. þar sem Eiríkur Jónsson yfirlæknir á Landspítalanum og Jón Torfason munu fjalla um sullaveiki á 19. öld.

Þetta er tilkynnt með fyrirvara um að salurinn verði tiltækur og að sóttvarnarreglur heimili fundarhöld.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Félagsfundum og öðrum viðburðum frestað vegna COVID-19

Félagsfundum og öðrum viðburðum frestað vegna COVID-19

Vegna COVID-19 veirunnar hefur stjórn Ættfræðifélagsins ákveðið að slá á frest öllum fundarhöldum og öðrum viðburðum á vegum félagsins um óákveðinn tíma, eða þar til öll hætta er liðin hjá. Þetta þýðir að það verður enginn marsfundur eins og búið var að auglýsa. Næsti viðburður verður auglýstur með tölvupósti og tilkynningum á vef félagsins og Facebooksíðu þess þegar ljóst er að engin hætta er lengur fyrir hendi.

Vinsamlegast látið þetta berast til allra sem þið teljið að þurfi að vita af þessu og hafa ekki aðgang að tölvupósti eða vefmiðlum.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Ættfræði og persónuvernd

Ættfræði og persónuvernd

Þórður Sveinsson lögfræðingur og sviðsstjóri úttekta hjá Persónuvernd flutti erindi um vinnslu persónuupplýsinga í þágu ættfræði á félagsfundi Ættfræðifélagsins 12. desember 2019.

Í erindi sínu fór Þórður yfir þróun persónuverndarlöggjafar frá Evrópuráðssamningi frá 1981 og fyrstu íslensku persónuverndarlöggjöfinni, lög um skráningu á upplýsingum um einkamálefni nr. 63/1981, sem sett var sama ár. Þeim lögum var síðar breytt með lögum nr. 39/1985 og 121/1989. Um aldamótin voru sett ný lög nr. 77/2000 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga í kjölfar persónuverndartilskipunar Evrópusambandsins nr. 95/46/EB. Árið 2016 gaf Evrópusambandið út persónuverndarreglugerð nr. 2016/679 (pvrg) og á henni byggðust lög nr. 90/2018 (pvl) um skráningu og vinnslu persónuupplýsinga, en þau lög eru einmitt efni þessa fundar.

Pvrg. gildir ekki um látna en pvl. gilda hins vegar í fimm ár frá andláti og lengur ef sanngjarnt og eðlilegt þykir að upplýsingar fari leynt. Pvl. og pvrg. gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu eða eru einvörðungu til persónulegra nota.

Ekki er minnst sérstaklega á ættfræðiupplýsingar í pvl. og pvrg. Hins vegar er minnst á vinnslu í sagnfræðilegum tilgangi og eftir atvikum gæti ættfræði flokkast með slíkri vinnslu. Sú almenna vinnsluheimild sem Persónuvernd hefur helst vísað til í tengslum við ættfræði er að lögmætir hagsmunir af vinnslu vegi þyngra en réttindi og frelsi hins skráða. Í ákveðnum tilvikum hefur Persónuvernd þó talið þörf á samþykki viðkomandi. Dæmi um slíkt eru upplýsingar um einkunnir, ættleiðingar og skráning fyrrverandi maka úr barnlausu hjónabandi. Í pvl. og pvrg. eru viðbótarskilyrði fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga eins og upplýsingar um kynþátt, þjóðernislegan uppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, heilsuhagi, kynlíf og kynhegðan.

Opinberum skjalasöfnum er skylt að veita aðgang að gögnum eftir tiltekinn tíma. Almennt er miðað við 30 ár en 50 ár fyrir manntöl og prestþjónustubækur, 80 ar þegar um ræðir einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og 100 ár fyrir sjúkraskrár og aðrar skrár um heilsufarsupplýsingar nafngreindra manna.

Auk vinnsluheimildar þarf ávallt að fara eftir sex meginreglum um vinnslu persónuupplýsinga sem sérstaklega er mælt fyrir um (6. gr. pvl. og 5. gr. pvrg.). Reglurnar lúta að sanngirni og gagnsæi, skýrum og málefnalegum tilgangi, meðalhófi, áreiðanleika, afmörkuðum varðveislutíma og öryggi.

Samandregið má segja að heimilt sé að halda skrá um grunnupplýsingar eins og nöfn, fæðingardaga, fæðingarstaði, dánardaga, dánarstaði, störf og búsetu, líkt og flestir sem fást við ættfræði gera og hafa gert, og birta slíkar upplýsingar opinberlega. Vandinn byrjar þegar til stendur að birta viðkvæmar upplýsingar úr slíkum skrám/grunnum. Þá er líklegt að nauðsynlegt sé að leita samþykkis viðkomandi aðila. Í flóknari tilfellum er ráðlegt að leita ráðgjafar hjá Persónuvernd.

Góður rómur var gerður að máli Þórðar og spurðu fundarmenn margs.

Hægt er að horfa á upptöku af fundinum.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir
Októberfundur 2019

Októberfundur 2019

Sigrún Magnúsdóttir
Sigrún Magnúsdóttir.

Fimmtudaginn 31. október 2019 flutti Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur erindi um gjörningaveðrið í Hrísey og afa sinn, Vilhjálm Einarsson (1863-1933) bónda á Bakka í Svarfaðardal, Galdra-Villa. Um tvítugt var hann sjómaður í Eyjafirði og var talinn hafa valdið gjörningaveðri sem skall á í Hrísey 11. september 1884. Veðrið laskaði eða eyðilagði 33 síldarskip Norðmanna. Galdraáburðurinn fylgdi honum alla ævina.

Í erindi sínu fór Sigrún yfir ævi Galdra-Villa og aðdraganda að atburðum í Hrísey þegar áðurnefnt gjörningaveður skall þar á með miklum afleiðingum. Einnig fjallaði hún um búskap Villa á Bakka. Hann var stórbóndi og mikill framfaramaður, en ævinlega hliðhollur lítilmagnanum.

Mikið fjölmenni sótti fundinn, um sjötíu manns, sem er líklega met í aðsókn á félagsfundi Ættfræðifélagsins í seinni tíð.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir