Fimmtudaginn 28. mars heldur Guðfinna Ragnarsdóttir ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins erindi um Ófeig Jónsson listmálara og bónda á Heiðarbæ í Þingvallasveit, ættir hans og lífshlaup.
Hann var fæddur 1770 að Búrfelli í Grímsnesi og varð mikill vinur Kristjáns í Skógarkoti. Hann lagði gjörva hönd á margt og var eftirsóttur rokkasmiður og málari. Hann byggði kirkjur, smíðaði altari og predikunarstóla og málaði altaristöflur. Meðal kirkna sem hann skreytti eru Þingvallakirkja, Úlfljótsvatnskirkja, Miðdalskirkja í Laugardal og Tungufellskirkja.
Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafnsins að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.