Dalrún J. Eygerðardóttir vinnur að doktorsritgerð í Háskóla Íslands um sögu ráðskvenna á íslenskum sveitaheimilum á ofanverðri 20. öld. Dalrún byggir rannsóknina að miklu leyti á viðtölum við fyrverandi ráðskonur til sveita. Hún hefur rætt við 45 konur og kvikmyndað viðtölin, sem nýtast munu við gerð heimildarmyndar hennar um sama efni. Dalrún stefnir á að skila ritgerðinni eftir um eitt og hálft ár.
„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að rannsaka félagslega og menningarlega stöðu ráðskvenna sem störfuðu á einkaheimilum í sveit á síðari hluta 20. aldar,“ segir Dalrún í viðtali við Morgunblaðið 5. nóvember sl. Hún segist skoða hvers vegna konur hafi sótt í ráðskonustarfið, sem algengast var að væri til skemmri tíma. Á þessum tímapunkti í rannsókninni hafi þegar komið fram að fjölmennasti hópurinn gafi verið einhleypar konur, sérstaklega einstæðar mæður, en ýmsar aðrar ástæður hafi einnig legið að baki. Nefna megi að sumar konur hafi gerst ráðskonur af greiðasemi við skyldmenni eða vini. Einnig verði að halda því til haga að margar konur hafi hreinlega haft áhuga á því að starfa í sveit.