Lög félagsins

Lögin

Lög Ættfræðifélagsins eins og þau litu út eftir breytingar á aðalfundi 27. febrúar 2003.

 

1. grein. Nafn félagsins og lögheimili

Félagið heitir Ættfræðifélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein. Hlutverk

Hlutverk félagsins er:

 1. Að stuðla að auknum áhuga á ættfræði, ættfræðirannsóknum og útgáfu frumheimilda og hjálpargagna fyrir þá sem stunda þjóðleg fræði (ættfræði) svo sem manntala, búendatala og ættartöluhandrita.
 2. Að halda félagsfundi um ættfræðilegt efni.
 3. Að gefa út félagsbréf þar sem fyrirlestrar og annað efni er birt.
 4. Að leita eftir samstarfi við önnur fræðifélög hérlendis og erlendis.

3. grein. Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert og miðast reikningsár við almanaksárið. Fundinn skal boða skriflega með minnst tíu daga fyrirvara. Þar komi fram dagskrá fundarins, en hún skal vera á þessa leið:

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
 3. Umræða og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og ársreikningana.
 4. Lagabreytingar.
 5. Kosningar samkvæmt 4. grein.
 6. Árgjald ákveðið.
 7. Önnur mál.

4. grein. Stjórn, stjórnarkjör og endurskoðendur

Stjórn félagsins skipa fimm aðalmenn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi og tveir varamenn. Formaður skal kjörinn sérstaklega til tveggja ára. Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Á hverju ári ganga tveir aðalmenn og einn varamaður úr stjórn og skulu kosnir menn í þeirra stað, fyrst aðalmenn og svo varamaður. Auk þess kjósa til tveggja ára tvo endurskoðendur og einn til vara. Leita skal á aðalfundi eftir tillögum um framboð til kjörs stjórnar og endurskoðenda. Kosning skal vera bundin og skrifleg ef fleiri eru í kjöri en kjósa skal.

5. grein. Nefndir

Stjórnin skipar nefndir eftir þörfum. Í hverri nefnd skulu vera minnst 3 menn.

6. grein. Lög og lagabreytingar

Breytingar við lög þessi skulu aðeins gerðar á aðalfundi. Tillögur þar um skulu sendar með fundarboði. Til samþykktar þarf 60% fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi.

7. grein. Slit félagsins

Eigi má leggja félagið niður ef tíu menn eða fleiri vilja halda því áfram. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess afhentar Þjóðskjalasafninu til varðveislu enda séu þær afhentar aftur félagi er síðar kynni að vera stofnað í sama tilgangi og félag þetta.

 

Samfélagsmiðlar