Purka

Purka

Einu sinni var heimalningur hjá afa mínum og ömmu, Guðfinni Jóni Björnssyni og Sigurbjörgu Guðbrandsdóttur, í Litla-Galtardal á Fellsströnd í Dalasýslu. Hann var undan á úr Purkey, en afi var vanur að taka þaðan upprekstrarfé. Ærin drapst og lambið fékk nafnið Purka.

Einn sumardag var Sigurbjörg amma búin að hita kaffi og baka pönnukökur. Kaffikannan og diskurinn með pönnukökunum stóðu á eldhúsborðinu. Amma brá sér svo eitthvað frá. Purka, sem stundum gerði sig heimakomna, kom inn bæjargöngin, stökk upp á borðið, rak sig í könnuna, forláta emaleraða könnu með blómaskreytingum. Kannan datt í gólfið með kafffinu og skemmdist á handfanginu og lokinu og svo át Purka meiri partinn af pönnukökunum. Eftir þessa uppákomu var kaffikannan aldrei kölluð annað en Purka! Þessa kaffikönnu gaf Pálína móðursystir mín mér um 1988, en móðir mín, Björg, hafði gefið mömmu sinni kaffikönnuna sumarið 1929 ásamt sex teskeiðum, tvennum hnífapörum, einu sápustykki, þrem glösum af dropum og einum Persilpakka.

Guðfinna S. Ragnarsdóttir

 

Samfélagsmiðlar