Þessa rósavettlinga úr eingirni prjónaði Björg Magnúsdóttir ljósmóðir frá Túngarði, f. 1888 d. í febrúar 1985. Hún gaf mér vettlingana um 1970. Björg var dóttir þeirra Staðarfellshjóna, Magnúsar Friðrikssonar bónda og oddvita og Soffíu Gestsdóttur.
Móðir mín ólst upp hjá þeim til sex ára aldurs og síðan hjá Björgu dóttur þeirra og manni hennar, Magnúsi Jónassyni í Túngarði á Fellsströnd, þar til hún var á tólfta árinu, þá fór hún í Dalinn til foreldra sinna.
Leppana prjónaði Agnes Guðfinnsdóttir móðursystir mín, húsfreyja á Ytra-Skörðugili í Skagafirði. Agnes var fædd 1897. Hún prjónaði mikið, m.a. sjöl úr þunnum þræði og seldi í búðir eftir að hún flutti til Reykjavíkur.
Guðfinna S. Ragnarsdóttir