Á félagsfundi Ættfræðifélagsins, fimmtudaginn 26. september 2019, flutti Jón Torfi Arason sagnfræðingur erindi um Magnús Ketilsson sýslumann í Búðardal í Dalasýslu og hugmyndafræði hans.
Í erindi sínu fjallaði Jón Torfi um hugmyndaheim 18. aldar fræðimannsins Magnúsar Ketilssonar (1732-1803), eins og hann birtist í erlendum bókakosti hans og álitsgerð um viðreisn Íslands, sem hann sendi Landsnefndinni fyrri árið 1771.
Magnús Ketilsson sýslumaður í Dalasýslu er einn þeirra manna sem gjarnan er nefndur í samhengi við upplýsinguna á Íslandi. Hann stundaði umfangsmiklar umbætur á ýmsum sviðum þjóðlífsins og þótti mjög framfarasinnaður. Þannig var hann aðalhöfundur útgefinna rita Hrappseyjarprentsmiðju (1773-1794), stundaði miklar búfræðitilraunir heima í Búðardal og lagði auðvitað stund á ættfræði.
Magnús var fjölfróður maður og hafði á bókalofti sínu í Búðardal á Skarðsströnd eitt stærsta einkabókasafn á Íslandi og var meiri hluti safnsins erlendar bækur. Efnisleg fjölbreytni í safni Magnúsar spannaði svo að segja allt fræðasvið evrópsku upplýsingarinnar og margir af þeim höfundum sem þar birtust eru enn í dag viðfangsefni háskólanema um allan heim.
Í álitsgerð Magnúsar má víða finna dæmi um skýr hugmyndafræðileg áhrif sem rekja má til bókasafns hans, en þar vísar hann oft í erlenda höfunda máli sínu til stuðnings. Einn helsti áhrifavaldur hans var þýski hagfræðingurinn J.H.G. von Justi, enda var hagfræði, eða hagræn hugsun, sérstaklega áberandi í hugmyndafræði Magnúsar.
Viðstaddir gerðu góðan róm að málflutningi Jóns Torfa og spurðu margs.