Fyrsti félagsfundur ársins 2018 fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. janúar. Helga Hlín Bjarnadóttir sagnfræðingur var fyrirlesari kvöldsins og flutti snjalla tölu um Framfarastofnunina og Bréflega félagið í Breiðafirði.
Driffjöðurin á bak við stofnun þessara félaga var menningarfrömuðurinn Ólafur Sívertsen, bóndi, prestur og prófastur í Flatey á Breiðafirði. Framfarastofnunin var upphaflega bókasafn, en lét fljótlega til sín taka á fleiri sviðum og beitti sér fyrir upplýsingu og menntun í Breiðafjarðareyjum og víðar. Ásamt Ólafi var tengdasonur hans, Guðmundur Einarsson prestur og prófastur á Kvennabrekku í Miðdölum og á Breiðabólsstað á Skógarströnd, mjög virkur í Bréflega félaginu. Afkomandi þessara ágætu manna er núverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir.