Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, flytur erindi um síðustu skólasveina hins forna Hólaskóla.
Það er gömul saga og ný að í skóla skapast vinátta sem endist gjarnan ævina á enda, ekki síst þegar ungmenni búa saman í heimavist í mörg ár. Strákarnir fimm sem útskrifuðust vorið 1802 frá Hólum höfðu flestir dvalið þar í sex eða sjö vetur. Yfir skólavist þeirra hvíldi skuggi því að biskupsembættið var lagt niður og skólann átti að flytja til Reykjavíkur.
Sennilega hafa fáar ákvarðanir höggvið nær Norðlendingum en niðurlagning skólans og biskupsembættisins á Hólum. Það var miklu örðugra að senda unga pilta alla leið til Reykjavíkur og færri fengu því tækifæri til menntunar. Alvarleg byggðaröskun hófst með þessari ákvörðun. Menntun er undirstaða framfara.
Í 700 ár höfðu Hólar verið helsti skóla- og menningarstaðurinn norðan heiða. Síðasta skólaár þeirra félaga fer rektor til Kaupmannahafnar til að reyna að sporna gegn niðurlagningu skólans og konrektor var veikur og gat ekki sinnt embættinu né kennslu.
Strákarnir sem útskrifuðust saman frá Hólum árið 1802 voru með mismunandi bakgrunn en tengdust með margvíslegum hætti. Við getum lesið nokkuð í samfélagið á Íslandi í upphafi 19. aldar með því að skoða lífshlaup þessara pilta. Allir urðu þeir merkismenn. Þeir voru með næmt auga fyrir þjóðlegum fróðleik og miðluðu honum. Einn var sagður hamingjumaður, annar málvísindamaður, þriðji fræðimaður, fjórði hagleiksmaður og sá fimmti hagyrðingur.
Sigrún Magnúsdóttir mun rýna lítillega í ættir og lífsferil skólapiltanna og geta um nokkra afkomendur þeirra.
Myndin að ofan: Hólar í Hjaltadal. Ljósmynd: Michael Scaduto/Wikimedia Commons.
Sjá viðburð á Facebook.