Vegna óviðráðanlegra ástæðna fellur þessi fyrirlestur niður, því miður
Á félagsfundi Ættfræðifélagsins 28. apríl 2022 mun Albína Hulda Pálsdóttir dýrabeinafornleifafræðingur og doktorsnemi við Háskólann í Osló flytja fyrirlestur um uppruna íslensku sauðkindarinnar, fornerfðafræði og dýrabeinafornleifafræði.
Sauðkindin spilaði lykilhlutverk í landnámi Íslands á 9. öld en segl víkingaskipanna voru ofin úr ull. Ullin, kjötið, mjólkin og hornin voru mikilvægar afurðir fyrir Íslendinga allt frá landnámi og án sauðkindarinnar hefði landnám Norður-Atlantshafsins verið nánast ómögulegt.
Þrátt fyrir mikilvægi sauðkindarinnar hefur hingað til lítið verið vitað með vissu um uppruna hennar. Fjallað verður um rannsókn á uppruna íslensku sauðkindarinnar sem staðið hefur frá 2016 við Háskólann í Osló og Landbúnaðarháskóla Íslands. Við rannsóknina hefur verið greint erfðaefni úr dýrabeinum sem fundist hafa í fornleifarannsóknum á Íslandi, Færeyjum, Noregi og Bretlandseyjum. Beinin eru frá víkingaöld og fyrri hluta miðalda og því mörg hundruð ára gömul.
Mikil framþróun hefur orðið í þeirri tækni sem notuð er til fornDNA greininga undanfarin ár og þekking á erfðum íslenskra búfjárstofna hefur einnig aukist. Fornleifafræðingar eru farnir að nýta sér fornDNA greiningar til að skoða flutninga fólks og dýra milli svæða og landa með nákvæmari hætti en hefðbundin fornleifafræði og dýrabeinafornleifafræði leyfðu áður. Markmiðið er að dýpka skilning okkar á uppruna íslensku sauðkindarinnar og þróun stofnsins frá innflutningi á landnámsöld til dagsins í dag.