Félagsfundi, sem halda átti 28. janúar 2021 er frestað af sóttvarnarástæðum.
Stefnt er að því að halda aðalfund 25. febrúar nk., nema sóttvarnarástæður hamli.
Félagsfundi, sem halda átti 28. janúar 2021 er frestað af sóttvarnarástæðum.
Stefnt er að því að halda aðalfund 25. febrúar nk., nema sóttvarnarástæður hamli.
Öll þekkjum við vefinn Icelandic Roots, sem eldhuginn og dugnaðarforkurinn Sunna Olafson Furstenau stofnaði og heldur úti af miklum myndarskap. Vefurinn fagnar sjö ára afmæli í dag, fimmtudaginn 12. nóvember 2020. Ættfræðifélagið færir afmælisbarninu innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.
Hópur sjálfboðaliða hjá IR styrkist stöðugt. Þeir eru staðsettir um víða veröld svo sem í Ástralíu, Brasilíu, Kanada, á Íslandi og í Bandaríkjunum. Kunnátta þeirra og reynsla er býsna fjölbreytt. Í hópnum eru ættfræðingar, sagnfræðingar, rithöfundar, kortagerðarmenn, sérfræðingar í upplýsingatækni, útbreiðslustjórar, ljósmyndarar og margir fleiri. Fyrstu samskipti margra við IR voru þau að þeir voru að leita að fjölskyldusögu sinni og bættu þá upplýsingum um ætt sína við fyrirliggjandi upplýsingar í ættfræðivefnum og ákváðu svo að gerast sjálfboðaliðar og leggja málefninu lið. Hér má lesa meira um hópinn.
Margt hefur áunnist að því marki að varðveita, halda á lofti og fræða fólk um arfleifð Íslendinga og menningu. Síðast liðin sjö ár hefur ættfræðivefurinn Icelandic Roots veitt liðlega $102.500 – eitt hundrað og tvö þúsund og fimm hundruð dali – til samtaka á sviði íslenskra menningarmála ásamt styrkjum til Snorra verkefnanna og til nemenda sem eru í íslenskunámi á Íslandi og í Kanada.
Þrátt fyrir það að aflýsa hafi þurft mörgum viðburðum vegna Covid-19 árið 2020, veitti IR samtökum um íslensku arfleifðina í Kanada, Bandaríkjunum og Íslandi $12.500 – tólf þúsund og fimm hundruð dali.
Ýmislegt áhugavert er líka í boði fyrir þá sem ekki eru skráðir með aðgang að ættfræðivefnum. Má þar nefna áhugaverðar greinar og viðtöl á blogginu ásamt menningartengdum upplýsingum. IR býður oft upp á skemmtilega viðburði, bæði staðbundna og á netinu. Nefna má námskeið, vefnámskeið, spjallstundir eða líkamsræktarverkefni eins og „Fótspor til gamans“. Á nýju ári mun hlaðvarp á vegum Icelandic Roots hefja göngu sína. Skráið ykkur endilega inn á bloggið og fylgist með öllu því sem þar er á seyði.
Við höfum sett saman myndband til að fagna árunum sjö og hægt er að skoða það á samfélagsmiðlunum. Ítarlegri upplýsingar um samtökin, sem eru góðgerðarsamtök rekin án hagnaðarsjónarmiða, er að finna á vef samtakanna.
Myndina að ofan tók Benedikt Jónsson á Þingvöllum haustið 2010.
Eins og kunnugt er hafa ekki verið aðstæður til samkomuhalds undanfarna mánuði. Ástæður þessa eru tvær. Í fyrsta lagi hafa verið í gangi takmarkanir á samkomuhaldi vegna COVID-19 og í öðru lagi hefur fundarsalurinn í Þjóðskjalasafni, sem við höfum notað, verið lokaður þar sem hann hefur verið notaður sem bráðabirgðalestrarsalur á meðan viðgerð á aðallestrarsalnum hefur farið fram. Viðgerðarframkvæmdir hafa tafist verulega vegna COVID-19 og þannig tengjast báðar ástæðurnar. Nú er ljóst að ekki verður neinn félagsfundur í nóvember af áðurnefndum ástæðum og þar með blasir við að þessu ári lýkur með því að aðeins einn félagsfundur var haldinn, í janúar, og svo var aðalfundur í febrúar. Við vonum að nýtt ár verði okkur hagfelldara í þessu efni.
Þórður B. Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Reiknistofu bankannna hefur um árabil verið félagi í Ættfræðifélaginu og mikill áhugamaður um ættfræði. Hann hefur í gegnum tíðina komið sér upp fágætu bókasafni um ættfræði og sögu lands og þjóðar. Þórður hefur nú dregið sig í hlé á þessum vettvangi og hefur ákveðið að gefa félögum Ættfræðifélagsins kost á að eignast bækur úr bókasafni sínu. Dóttir Þórðar, Ingveldur Lára, hefur skráð þær bækur sem hér um ræðir og birtist sú skrá á vef Ættfræðifélagsins. Áhugasamir geta skoðað skrána, sem inniheldur 259 titla, og haft samband við Ingveldi Láru varðandi afhendingu bóka.
Ættfræðifélagið þakkar Þórði B. Sigurðssyni fyrir tryggð við félagið og velvild í þess garð, sem meðal annars birtist í þeim rausnarskap að gefa félögum kost á að eignast góðar bækur án endurgjalds.
Ekki verður hægt að halda félagsfund í október vegna þess að fundarsalurinn sem við höfum venjulega notað er ekki tiltækur. Auk þess er heilbrigðisástandið í þjóðfélaginu þannig að ekki þykir ástæða til samkomuhalds. Á þessari stundu er óvíst með félagsfund í nóvember af sömu ástæðum. Nánar verður tilkynnt um það síðar.
Ekki verður af félagsfundi í september vegna þess að fundarsalurinn sem við höfum venjulega notað er ekki tiltækur. Hins vegar er stefnt að félagsfundi 29. október n.k. þar sem Eiríkur Jónsson yfirlæknir á Landspítalanum og Jón Torfason munu fjalla um sullaveiki á 19. öld.
Þetta er tilkynnt með fyrirvara um að salurinn verði tiltækur og að sóttvarnarreglur heimili fundarhöld.
Vegna COVID-19 veirunnar hefur stjórn Ættfræðifélagsins ákveðið að slá á frest öllum fundarhöldum og öðrum viðburðum á vegum félagsins um óákveðinn tíma, eða þar til öll hætta er liðin hjá. Þetta þýðir að það verður enginn marsfundur eins og búið var að auglýsa. Næsti viðburður verður auglýstur með tölvupósti og tilkynningum á vef félagsins og Facebooksíðu þess þegar ljóst er að engin hætta er lengur fyrir hendi.
Vinsamlegast látið þetta berast til allra sem þið teljið að þurfi að vita af þessu og hafa ekki aðgang að tölvupósti eða vefmiðlum.
Þórður Sveinsson lögfræðingur og sviðsstjóri úttekta hjá Persónuvernd flutti erindi um vinnslu persónuupplýsinga í þágu ættfræði á félagsfundi Ættfræðifélagsins 12. desember 2019.
Í erindi sínu fór Þórður yfir þróun persónuverndarlöggjafar frá Evrópuráðssamningi frá 1981 og fyrstu íslensku persónuverndarlöggjöfinni, lög um skráningu á upplýsingum um einkamálefni nr. 63/1981, sem sett var sama ár. Þeim lögum var síðar breytt með lögum nr. 39/1985 og 121/1989. Um aldamótin voru sett ný lög nr. 77/2000 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga í kjölfar persónuverndartilskipunar Evrópusambandsins nr. 95/46/EB. Árið 2016 gaf Evrópusambandið út persónuverndarreglugerð nr. 2016/679 (pvrg) og á henni byggðust lög nr. 90/2018 (pvl) um skráningu og vinnslu persónuupplýsinga, en þau lög eru einmitt efni þessa fundar.
Pvrg. gildir ekki um látna en pvl. gilda hins vegar í fimm ár frá andláti og lengur ef sanngjarnt og eðlilegt þykir að upplýsingar fari leynt. Pvl. og pvrg. gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu eða eru einvörðungu til persónulegra nota.
Ekki er minnst sérstaklega á ættfræðiupplýsingar í pvl. og pvrg. Hins vegar er minnst á vinnslu í sagnfræðilegum tilgangi og eftir atvikum gæti ættfræði flokkast með slíkri vinnslu. Sú almenna vinnsluheimild sem Persónuvernd hefur helst vísað til í tengslum við ættfræði er að lögmætir hagsmunir af vinnslu vegi þyngra en réttindi og frelsi hins skráða. Í ákveðnum tilvikum hefur Persónuvernd þó talið þörf á samþykki viðkomandi. Dæmi um slíkt eru upplýsingar um einkunnir, ættleiðingar og skráning fyrrverandi maka úr barnlausu hjónabandi. Í pvl. og pvrg. eru viðbótarskilyrði fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga eins og upplýsingar um kynþátt, þjóðernislegan uppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, heilsuhagi, kynlíf og kynhegðan.
Opinberum skjalasöfnum er skylt að veita aðgang að gögnum eftir tiltekinn tíma. Almennt er miðað við 30 ár en 50 ár fyrir manntöl og prestþjónustubækur, 80 ar þegar um ræðir einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari og 100 ár fyrir sjúkraskrár og aðrar skrár um heilsufarsupplýsingar nafngreindra manna.
Auk vinnsluheimildar þarf ávallt að fara eftir sex meginreglum um vinnslu persónuupplýsinga sem sérstaklega er mælt fyrir um (6. gr. pvl. og 5. gr. pvrg.). Reglurnar lúta að sanngirni og gagnsæi, skýrum og málefnalegum tilgangi, meðalhófi, áreiðanleika, afmörkuðum varðveislutíma og öryggi.
Samandregið má segja að heimilt sé að halda skrá um grunnupplýsingar eins og nöfn, fæðingardaga, fæðingarstaði, dánardaga, dánarstaði, störf og búsetu, líkt og flestir sem fást við ættfræði gera og hafa gert, og birta slíkar upplýsingar opinberlega. Vandinn byrjar þegar til stendur að birta viðkvæmar upplýsingar úr slíkum skrám/grunnum. Þá er líklegt að nauðsynlegt sé að leita samþykkis viðkomandi aðila. Í flóknari tilfellum er ráðlegt að leita ráðgjafar hjá Persónuvernd.
Góður rómur var gerður að máli Þórðar og spurðu fundarmenn margs.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum.
Fimmtudaginn 31. október 2019 flutti Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur erindi um gjörningaveðrið í Hrísey og afa sinn, Vilhjálm Einarsson (1863-1933) bónda á Bakka í Svarfaðardal, Galdra-Villa. Um tvítugt var hann sjómaður í Eyjafirði og var talinn hafa valdið gjörningaveðri sem skall á í Hrísey 11. september 1884. Veðrið laskaði eða eyðilagði 33 síldarskip Norðmanna. Galdraáburðurinn fylgdi honum alla ævina.
Í erindi sínu fór Sigrún yfir ævi Galdra-Villa og aðdraganda að atburðum í Hrísey þegar áðurnefnt gjörningaveður skall þar á með miklum afleiðingum. Einnig fjallaði hún um búskap Villa á Bakka. Hann var stórbóndi og mikill framfaramaður, en ævinlega hliðhollur lítilmagnanum.
Mikið fjölmenni sótti fundinn, um sjötíu manns, sem er líklega met í aðsókn á félagsfundi Ættfræðifélagsins í seinni tíð.
Á félagsfundi Ættfræðifélagsins, fimmtudaginn 26. september 2019, flutti Jón Torfi Arason sagnfræðingur erindi um Magnús Ketilsson sýslumann í Búðardal í Dalasýslu og hugmyndafræði hans.
Í erindi sínu fjallaði Jón Torfi um hugmyndaheim 18. aldar fræðimannsins Magnúsar Ketilssonar (1732-1803), eins og hann birtist í erlendum bókakosti hans og álitsgerð um viðreisn Íslands, sem hann sendi Landsnefndinni fyrri árið 1771.
Magnús Ketilsson sýslumaður í Dalasýslu er einn þeirra manna sem gjarnan er nefndur í samhengi við upplýsinguna á Íslandi. Hann stundaði umfangsmiklar umbætur á ýmsum sviðum þjóðlífsins og þótti mjög framfarasinnaður. Þannig var hann aðalhöfundur útgefinna rita Hrappseyjarprentsmiðju (1773-1794), stundaði miklar búfræðitilraunir heima í Búðardal og lagði auðvitað stund á ættfræði.
Magnús var fjölfróður maður og hafði á bókalofti sínu í Búðardal á Skarðsströnd eitt stærsta einkabókasafn á Íslandi og var meiri hluti safnsins erlendar bækur. Efnisleg fjölbreytni í safni Magnúsar spannaði svo að segja allt fræðasvið evrópsku upplýsingarinnar og margir af þeim höfundum sem þar birtust eru enn í dag viðfangsefni háskólanema um allan heim.
Í álitsgerð Magnúsar má víða finna dæmi um skýr hugmyndafræðileg áhrif sem rekja má til bókasafns hans, en þar vísar hann oft í erlenda höfunda máli sínu til stuðnings. Einn helsti áhrifavaldur hans var þýski hagfræðingurinn J.H.G. von Justi, enda var hagfræði, eða hagræn hugsun, sérstaklega áberandi í hugmyndafræði Magnúsar.
Viðstaddir gerðu góðan róm að málflutningi Jóns Torfa og spurðu margs.