Velkomin á nýjan vef Ættfræðifélagsins

Velkomin á nýjan vef Ættfræðifélagsins

Ný vefur Ættfræðifélagsins opnar í dag, en hann hefur verið í smíðum að undanförnu. Ekki er þó um fullbúna smíð að ræða og eru góðfúsir lesendur beðnir velvirðingar á hnökrum sem við reynum að lagfæra eins fljótt og framast er unnt.

Á þessum tímamótum flutti Ættfræðifélagið hýsingu og tölvupóst frá Hringiðunni til Hýsingar.is / TACTICA ehf.

Efni á hinum nýja vef er ekki ýkja frábrugðið því sem var á gamla Joomla vefnum, en meðal nýjunga má nefna viðburðadagatal. Stefnt var að því að hafa vefinn einfaldan í uppsetningu og auðlæsilegan, bæði á tölvuskjám og í snjalltækjum og símum.

Vefurinn er gerður í vefumsjónarkerfinu WordPress sem er vinsælasta kerfi sinnar tegundar í heiminum.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir
Janúarfundur 2018

Janúarfundur 2018

Fyrsti félagsfundur ársins 2018 fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. janúar. Helga Hlín Bjarnadóttir sagnfræðingur var fyrirlesari kvöldsins og flutti snjalla tölu um Framfarastofnunina og Bréflega félagið í Breiðafirði.

Driffjöðurin á bak við stofnun þessara félaga var menningarfrömuðurinn Ólafur Sívertsen, bóndi, prestur og prófastur í Flatey á Breiðafirði. Framfarastofnunin var upphaflega bókasafn, en lét fljótlega til sín taka á fleiri sviðum og beitti sér fyrir upplýsingu og menntun í Breiðafjarðareyjum og víðar. Ásamt Ólafi var tengdasonur hans, Guðmundur Einarsson prestur og prófastur á Kvennabrekku í Miðdölum og á Breiðabólsstað á Skógarströnd, mjög virkur í Bréflega félaginu. Afkomandi þessara ágætu manna er núverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Rósavettlingar

Rósavettlingar

Þessa rósavettlinga úr eingirni prjónaði Björg Magnúsdóttir ljósmóðir frá Túngarði, f. 1888 d. í febrúar 1985. Hún gaf mér vettlingana um 1970. Björg var dóttir þeirra Staðarfellshjóna, Magnúsar Friðrikssonar bónda og oddvita og Soffíu Gestsdóttur.

Móðir mín ólst upp hjá þeim til sex ára aldurs og síðan hjá Björgu dóttur þeirra og manni hennar, Magnúsi Jónassyni í Túngarði á Fellsströnd, þar til hún var á tólfta árinu, þá fór hún í Dalinn til foreldra sinna.

Leppana prjónaði Agnes Guðfinnsdóttir móðursystir mín, húsfreyja á Ytra-Skörðugili í Skagafirði. Agnes var fædd 1897. Hún prjónaði mikið, m.a. sjöl úr þunnum þræði og seldi í búðir eftir að hún flutti til Reykjavíkur.

Guðfinna S. Ragnarsdóttir

Höfundur: aettadmin in Fróðleikur, Munir
Purka

Purka

Einu sinni var heimalningur hjá afa mínum og ömmu, Guðfinni Jóni Björnssyni og Sigurbjörgu Guðbrandsdóttur, í Litla-Galtardal á Fellsströnd í Dalasýslu. Hann var undan á úr Purkey, en afi var vanur að taka þaðan upprekstrarfé. Ærin drapst og lambið fékk nafnið Purka.

Einn sumardag var Sigurbjörg amma búin að hita kaffi og baka pönnukökur. Kaffikannan og diskurinn með pönnukökunum stóðu á eldhúsborðinu. Amma brá sér svo eitthvað frá. Purka, sem stundum gerði sig heimakomna, kom inn bæjargöngin, stökk upp á borðið, rak sig í könnuna, forláta emaleraða könnu með blómaskreytingum. Kannan datt í gólfið með kafffinu og skemmdist á handfanginu og lokinu og svo át Purka meiri partinn af pönnukökunum. Eftir þessa uppákomu var kaffikannan aldrei kölluð annað en Purka! Þessa kaffikönnu gaf Pálína móðursystir mín mér um 1988, en móðir mín, Björg, hafði gefið mömmu sinni kaffikönnuna sumarið 1929 ásamt sex teskeiðum, tvennum hnífapörum, einu sápustykki, þrem glösum af dropum og einum Persilpakka.

Guðfinna S. Ragnarsdóttir

 

Höfundur: aettadmin in Fróðleikur, Munir
Hnithögld – hornhögld

Hnithögld – hornhögld

Hnithagldir þessar eru úr hrútshorni og hnitaðar saman þannig að annar endinn gengur gegnum gat á hinum og hak hindrar að hagldirnar opnist. Á högldunum er stafurinn i. Þær eru smíðaðar af Jóhannesi Þórðarsyni bónda á Einfætingsgili í Bitru. Foreldrar hans voru Þórður Jónsson bónda í Heydal í Hrútafirði og k.h. Lilja Dalíla Jónsdóttir frá Kollsá. Jóhannes var fæddur 1. jan. 1833 og dáinn 4. mars 1888. Kona hans var Elín Guðmundsdóttir frá Einfætingsgili í Bitru. Þau Jóhannes og Elín fluttust árið 1860 frá Einfætingsgili að Ballará á Skarðströnd og síðar að Stakkabergi á Fellsströnd þar sem Jóhannes bjó til æviloka.

Jóhannes var langafi Björnfríðar Elimundardóttur húsfreyju að Björnólfsstöðum í Langadal, Hún., en hún var fædd á Stakkabergi á Fellsströnd, systir Lóu á Stakkabergi. Hún gaf mér hagldirnar árið 1971.

Guðfinna S. Ragnarsdóttir

Höfundur: aettadmin in Fróðleikur, Munir
Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 30. nóvember 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Benedikt Jónsson, formaður Ættfræðifélagsins, flytur erindi um Djúpavík á Ströndum.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er af Stóra-Bragga á Djúpavík. Ljósmynd: Benedikt Jónsson.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 26. október 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Eyþór Jóvinsson sýnir stuttmynd sína um ættfræðing og spjallar við fundarmenn. Myndin er aðallega tekin á Flateyri við Önundarfjörð.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er frá Flateyri. Wikimedia Commons/Christian Bickel.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Septemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Septemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 28. september 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík.

Sigrún Magnúsdóttir, fv. borgarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra, heldur erindi um Hólabiskups dætur.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir.

 

Gömul teikning af Hólum í Hjaltadal. Wikimedia Commons/Nordiske Billeder, fjerde bind. København 1870.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Vorganga 2017

Vorganga 2017

Hin árlega vorganga verður um Laugarnes laugardaginn 13. maí 2017. Leiðsögumaður er Guðfinna Ragnarsdóttir jarðfræðingur og ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins. Hún lýsir Laugarnesinu svona:

„Laugarnesið geymir sögu atburða og örlaga, biskupa og valda, mennta og menningar, stríðs og átaka, hernáms og fátæktar, sjúkdóma og erfiðleika, lista og listamanna og inn á milli, þótt ekki fari hátt, sögu alþýðunnar sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Þar er einnig að finna einu ósnortnu fjöruna á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi.“

Áhugasamir göngumenn mæta við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar klukkan 11:00.

Veðurspáin er ágæt, 11°C hiti, alskýjað og gola, 6 m/sek.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Göngur, Viðburðir
Aprílfundur Ættfræðifélagsins 2017

Aprílfundur Ættfræðifélagsins 2017

Aprílfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 27. apríl 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík.

Bernharð Haraldsson, kennari og fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, heldur erindi um Mannlíf og ábúendur í Skriðuhreppi hinum forna.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir!

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir