Fundir

Tilkynningar um fundi.

Nóvemberfundur 2018

Nóvemberfundur 2018

Magnús Grímsson sagnfræðingur og framhaldsskólakennari flutti fyrirlestur um fullveldistöku Íslendinga á félagsfundi Ættfræðifélagsins 29. nóvember sl.

Þar rakti hann aðdraganda fullveldisins, og þá þætti sem vörðuðu veginn að markinu: byltingar í Evrópu. Fjölnismenn, endurreisn alþingis, verslunarfrelsið, stöðulögin, stjórnarskráin, heimastjórnin, uppkastið, og stríðið mikla og kynnti til sögunnar þá danska konunga sem komu aðallega við sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Það var vel mætt á fundinn og var gerður góður rómur að máli Magnúsar.

Fundargestir á félagsfundi 29. nóvember 2018.

Fundargestir á félagsfundi 29. nóvember 2018.

 

Höfundur: Benedikt Jónsson in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Októberfundur 2018

Októberfundur 2018

Félagsfundur Ættfræðifélagsins fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. október 2018 og var vel sóttur. Hátt í sextíu manns mættu til að hlýða á fyrirlesara kvöldsins Guðfinnu S. Ragnarsdóttur ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins segja frá Matthíasi Ólafssyni á Orrahóli.

Matthías Ólafsson bóndi og sergeantmajor í Hjálpræðishernum var afar litríkur persónuleiki, þrætugjarn og yfirgangssamur framan af ævi, og neitaði fram á miðjan aldur að gangast við börnum sínum þótt þau væru orðin níu og öll með sömu konunni. Svo varð hann fyrir vitrun, frelsaðist og tók nýja stefnu í lífinu, stofnaði söfnuð á Fellsströndinni sem taldi tugi manna, giftist Pálínu barnsmóður sinni og gekkst við öllum börnunum. Börn voru hvorki skírð né fermd í Hjálpræðishernum, en vígð inn í söfnuðinn með miklum skuldbindingum og loforðum þar sem börnin voru færð Guði sem fórn og fengu síðan nafngiftarvottorð.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Septemberfundur 2018

Septemberfundur 2018

Jón Torfason skjalavörður í Þjóðskjalasafni Íslands hélt erindi um Pál Vídalín á félagsfundi Ættfræðifélagsins í gærkvöldi.

Páll Vídalín (f. 1667, d. 18. júlí 1727) var lögmaður og sýslumaður í Dalasýslu og Strandasýslu. Hann bjó í Víðidalstungu, í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Páll var samstarfsmaður Árna Magnússonar um gerð Jarðabókarinnar 1702-1714 og líklegast þekktastur fyrir þau störf. Hann var sagður einn vitrasti maður sinnar tíðar, fróður um lög- og fornfræði og skáld gott bæði á íslensku og latínu.

Í erindi sínu fór Jón yfir ævi Páls og störf, einkum ritstörf. Páll var eitt besta skáld sinnar samtíðar og orti fjölda lausavísna og sálma og nefndi Jón dæmi um hvort tveggja. Jón fjallaði einnig um rökfestu Páls, hugkvæmni og skýra hugsun og nefndi ýmis dæmi þar um, einkum úr verki Páls Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast.

Fundarmenn gerðu góðan róm að máli Jóns og spurðu margs.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Vorganga 2018

Vorganga 2018

Vorganga Ættfræðifélagsins fór fram laugardaginn 2. júní 2018. Gömlu varirnar við Ægissíðuna voru heimsóttar og einnig Móholt, Grímsstaðaholt, Melavegur, Illakelda, Þormóðsstaðir, Lambhóll, Garðar, Camp Thorhill, Brenneríið, Alliance, Aðalból, Túnsberg og Sunnuhlíð. Ragnhildur Magnúsdóttir húsmóðir í Lambhól, 93 ára gömul, kom út og heilsaði upp á hópinn.

Yfir 30 manns mættu í gönguna sem tók tvær og hálfa klukkustund. Veður var fremur kalt, en þurrt. Leiðsögumaður var Guðfinna Ragnarsdóttir jarðfræðingur og ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins.

Hér að neðan má sjá myndir sem Arnbjörn Jóhannesson ritari Ættfræðifélagsins tók í vorgöngunni.

Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
Vorganga 2018.
vorganga-2018_01
vorganga-2018_02
vorganga-2018_03
vorganga-2018_05
vorganga-2018_04
vorganga-2018_06
vorganga-2018_07
vorganga-2018_08
vorganga-2018_09
vorganga-2018_10
vorganga-2018_11
vorganga-2018_12
vorganga-2018_13
vorganga-2018_14
previous arrow
next arrow
vorganga-2018_01
vorganga-2018_02
vorganga-2018_03
vorganga-2018_05
vorganga-2018_04
vorganga-2018_06
vorganga-2018_07
vorganga-2018_08
vorganga-2018_09
vorganga-2018_10
vorganga-2018_11
vorganga-2018_12
vorganga-2018_13
vorganga-2018_14
previous arrow
next arrow
Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Göngur, Viðburðir
Um legorðsmálaskjöl

Um legorðsmálaskjöl

Fimmtudaginn 26. apríl 2018 flutti Guðmundur Sigurður Jóhannsson ættfræðingur fyrirlestur á félagsfundi Ættfræðifélagsins um legorðsmálaskjöl.

Guðmundur gerði ítarlega grein fyrir skjalasöfnum þar sem árlegar skrár um legorðsmál eru varðveittar og drap einnig á aðrar heimildir þar sem finna má upplýsingar um barneignir í hórdómi og lausaleik.

Fyrirlestur var vel sóttur og góður rómur gerður að máli Guðmundar sem gaf sér góðan tíma til þess að sýna fundargestum glærur af legorðsmálaskjölum úr hinum ýmsu skjalasöfnum og í framhjáhlaupi örfáar glærur af öðrum skjölum sem þar er að finna.

Myndin að ofan: Leyndarstund (A Secret Moment). Óþekktur höfundur/Wikimedia Commons.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Síðustu skólasveinar hins forna Hólaskóla

Síðustu skólasveinar hins forna Hólaskóla

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, flutti erindi um síðustu skólasveina hins forna Hólaskóla á félagsfundi Ættfræðifélagsins 22. mars sl.

Það er gömul saga og ný að í skóla skapast vinátta sem endist gjarnan ævina á enda, ekki síst þegar ungmenni búa saman í heimavist í mörg ár. Strákarnir fimm sem útskrifuðust vorið 1802 frá Hólum höfðu flestir dvalið þar í sex eða sjö vetur. Yfir skólavist þeirra hvíldi skuggi því að biskupsembættið var lagt niður og skólann átti að flytja til Reykjavíkur.

Sennilega hafa fáar ákvarðanir höggvið nær Norðlendingum en niðurlagning skólans og biskupsembættisins á Hólum. Það var miklu örðugra að senda unga pilta alla leið til Reykjavíkur og færri fengu því tækifæri til menntunar. Alvarleg byggðaröskun hófst með þessari ákvörðun. Menntun er undirstaða framfara.

Í 700 ár höfðu Hólar verið helsti skóla- og menningarstaðurinn norðan heiða. Síðasta skólaár þeirra félaga fer rektor til Kaupmannahafnar til að reyna að sporna gegn niðurlagningu skólans og konrektor var veikur og gat ekki sinnt embættinu né kennslu.

Strákarnir sem útskrifuðust saman frá Hólum árið 1802 voru með mismunandi bakgrunn en tengdust með margvíslegum hætti. Við getum lesið nokkuð í samfélagið á Íslandi í upphafi 19. aldar með því að skoða lífshlaup þessara pilta. Allir urðu þeir merkismenn. Þeir voru með næmt auga fyrir þjóðlegum fróðleik og miðluðu honum. Einn var sagður hamingjumaður, annar málvísindamaður, þriðji fræðimaður, fjórði hagleiksmaður og sá fimmti hagyrðingur.

Myndin að ofan: Hólar í Hjaltadal. Ljósmynd: Michael Scaduto/Wikimedia Commons.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Aðalfundur Ættfræðifélagsins

Aðalfundur Ættfræðifélagsins

Aðalfundur Ættfræðifélagsins fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 22. febrúar 2018 og hófst kl 20:00.

Formaður félagsins, Benedikt Jónsson, flutti skýrslu stjórnar og Kristinn Kristjánsson gjaldkeri kynnti reikninga félagsins á 73. starfsári félagsins, árinu 2017. Hagnaður félagsins jókst úr 20.000 kr í 157.580 kr á árinu þannig að hagur félagsins vænkaðist heldur. Mest munaði þar um breytingu á húsnæði sem fól í sér lægri leigu.

Sitjandi stjórn var endurkjörin og hana skipa, auk formanns:

  • Arnbjörn Jóhannesson
  • Áslaug Herdís Úlfsdóttir
  • Eiríkur Þór Einarsson
  • Kristinn Kristjánsson

Varamenn:

  • Anna Guðrún Hafsteinsdóttir
  • Hörður Einarsson

Stjórnin skiptir með sér verkum á næsta stjórnarfundi.

Olgeir Möller og Ólafur Pálsson voru endurkjörnir endurskoðendur reikninga.

Formaður kynnti nýjan vef félagsins og mæltist hann vel fyrir.

Þá kynnti formaður nýjan skjalaskrárvef Þjóðskjalasafns Íslands, en þar er að finna myndir af öllum sóknarmannatölum og prestsþjónustubókum í safninu, auk fleiri gagna.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Janúarfundur 2018

Janúarfundur 2018

Fyrsti félagsfundur ársins 2018 fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. janúar. Helga Hlín Bjarnadóttir sagnfræðingur var fyrirlesari kvöldsins og flutti snjalla tölu um Framfarastofnunina og Bréflega félagið í Breiðafirði.

Driffjöðurin á bak við stofnun þessara félaga var menningarfrömuðurinn Ólafur Sívertsen, bóndi, prestur og prófastur í Flatey á Breiðafirði. Framfarastofnunin var upphaflega bókasafn, en lét fljótlega til sín taka á fleiri sviðum og beitti sér fyrir upplýsingu og menntun í Breiðafjarðareyjum og víðar. Ásamt Ólafi var tengdasonur hans, Guðmundur Einarsson prestur og prófastur á Kvennabrekku í Miðdölum og á Breiðabólsstað á Skógarströnd, mjög virkur í Bréflega félaginu. Afkomandi þessara ágætu manna er núverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 30. nóvember 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Benedikt Jónsson, formaður Ættfræðifélagsins, flytur erindi um Djúpavík á Ströndum.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er af Stóra-Bragga á Djúpavík. Ljósmynd: Benedikt Jónsson.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 26. október 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Eyþór Jóvinsson sýnir stuttmynd sína um ættfræðing og spjallar við fundarmenn. Myndin er aðallega tekin á Flateyri við Önundarfjörð.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er frá Flateyri. Wikimedia Commons/Christian Bickel.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir