Viðburðir

Viðburðir, félagsfundir, göngur og aðrir viðburðir. Aðallega notað til að fá rétt yfirlit um eldri viðburði.

Um legorðsmálaskjöl

Um legorðsmálaskjöl

Fimmtudaginn 26. apríl 2018 flutti Guðmundur Sigurður Jóhannsson ættfræðingur fyrirlestur á félagsfundi Ættfræðifélagsins um legorðsmálaskjöl.

Guðmundur gerði ítarlega grein fyrir skjalasöfnum þar sem árlegar skrár um legorðsmál eru varðveittar og drap einnig á aðrar heimildir þar sem finna má upplýsingar um barneignir í hórdómi og lausaleik.

Fyrirlestur var vel sóttur og góður rómur gerður að máli Guðmundar sem gaf sér góðan tíma til þess að sýna fundargestum glærur af legorðsmálaskjölum úr hinum ýmsu skjalasöfnum og í framhjáhlaupi örfáar glærur af öðrum skjölum sem þar er að finna.

Myndin að ofan: Leyndarstund (A Secret Moment). Óþekktur höfundur/Wikimedia Commons.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Síðustu skólasveinar hins forna Hólaskóla

Síðustu skólasveinar hins forna Hólaskóla

Sigrún Magnúsdóttir, þjóðfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, flutti erindi um síðustu skólasveina hins forna Hólaskóla á félagsfundi Ættfræðifélagsins 22. mars sl.

Það er gömul saga og ný að í skóla skapast vinátta sem endist gjarnan ævina á enda, ekki síst þegar ungmenni búa saman í heimavist í mörg ár. Strákarnir fimm sem útskrifuðust vorið 1802 frá Hólum höfðu flestir dvalið þar í sex eða sjö vetur. Yfir skólavist þeirra hvíldi skuggi því að biskupsembættið var lagt niður og skólann átti að flytja til Reykjavíkur.

Sennilega hafa fáar ákvarðanir höggvið nær Norðlendingum en niðurlagning skólans og biskupsembættisins á Hólum. Það var miklu örðugra að senda unga pilta alla leið til Reykjavíkur og færri fengu því tækifæri til menntunar. Alvarleg byggðaröskun hófst með þessari ákvörðun. Menntun er undirstaða framfara.

Í 700 ár höfðu Hólar verið helsti skóla- og menningarstaðurinn norðan heiða. Síðasta skólaár þeirra félaga fer rektor til Kaupmannahafnar til að reyna að sporna gegn niðurlagningu skólans og konrektor var veikur og gat ekki sinnt embættinu né kennslu.

Strákarnir sem útskrifuðust saman frá Hólum árið 1802 voru með mismunandi bakgrunn en tengdust með margvíslegum hætti. Við getum lesið nokkuð í samfélagið á Íslandi í upphafi 19. aldar með því að skoða lífshlaup þessara pilta. Allir urðu þeir merkismenn. Þeir voru með næmt auga fyrir þjóðlegum fróðleik og miðluðu honum. Einn var sagður hamingjumaður, annar málvísindamaður, þriðji fræðimaður, fjórði hagleiksmaður og sá fimmti hagyrðingur.

Myndin að ofan: Hólar í Hjaltadal. Ljósmynd: Michael Scaduto/Wikimedia Commons.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Aðalfundur Ættfræðifélagsins

Aðalfundur Ættfræðifélagsins

Aðalfundur Ættfræðifélagsins fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 22. febrúar 2018 og hófst kl 20:00.

Formaður félagsins, Benedikt Jónsson, flutti skýrslu stjórnar og Kristinn Kristjánsson gjaldkeri kynnti reikninga félagsins á 73. starfsári félagsins, árinu 2017. Hagnaður félagsins jókst úr 20.000 kr í 157.580 kr á árinu þannig að hagur félagsins vænkaðist heldur. Mest munaði þar um breytingu á húsnæði sem fól í sér lægri leigu.

Sitjandi stjórn var endurkjörin og hana skipa, auk formanns:

  • Arnbjörn Jóhannesson
  • Áslaug Herdís Úlfsdóttir
  • Eiríkur Þór Einarsson
  • Kristinn Kristjánsson

Varamenn:

  • Anna Guðrún Hafsteinsdóttir
  • Hörður Einarsson

Stjórnin skiptir með sér verkum á næsta stjórnarfundi.

Olgeir Möller og Ólafur Pálsson voru endurkjörnir endurskoðendur reikninga.

Formaður kynnti nýjan vef félagsins og mæltist hann vel fyrir.

Þá kynnti formaður nýjan skjalaskrárvef Þjóðskjalasafns Íslands, en þar er að finna myndir af öllum sóknarmannatölum og prestsþjónustubókum í safninu, auk fleiri gagna.

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Janúarfundur 2018

Janúarfundur 2018

Fyrsti félagsfundur ársins 2018 fór fram í Þjóðskjalasafni Íslands fimmtudaginn 25. janúar. Helga Hlín Bjarnadóttir sagnfræðingur var fyrirlesari kvöldsins og flutti snjalla tölu um Framfarastofnunina og Bréflega félagið í Breiðafirði.

Driffjöðurin á bak við stofnun þessara félaga var menningarfrömuðurinn Ólafur Sívertsen, bóndi, prestur og prófastur í Flatey á Breiðafirði. Framfarastofnunin var upphaflega bókasafn, en lét fljótlega til sín taka á fleiri sviðum og beitti sér fyrir upplýsingu og menntun í Breiðafjarðareyjum og víðar. Ásamt Ólafi var tengdasonur hans, Guðmundur Einarsson prestur og prófastur á Kvennabrekku í Miðdölum og á Breiðabólsstað á Skógarströnd, mjög virkur í Bréflega félaginu. Afkomandi þessara ágætu manna er núverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Nóvemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 30. nóvember 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Benedikt Jónsson, formaður Ættfræðifélagsins, flytur erindi um Djúpavík á Ströndum.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er af Stóra-Bragga á Djúpavík. Ljósmynd: Benedikt Jónsson.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Októberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 26. október 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík (gengið inn um portið).

Eyþór Jóvinsson sýnir stuttmynd sína um ættfræðing og spjallar við fundarmenn. Myndin er aðallega tekin á Flateyri við Önundarfjörð.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Myndin er frá Flateyri. Wikimedia Commons/Christian Bickel.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Septemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Septemberfundur Ættfræðifélagsins 2017

Félagsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 28. september 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík.

Sigrún Magnúsdóttir, fv. borgarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra, heldur erindi um Hólabiskups dætur.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir.

 

Gömul teikning af Hólum í Hjaltadal. Wikimedia Commons/Nordiske Billeder, fjerde bind. København 1870.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Vorganga 2017

Vorganga 2017

Hin árlega vorganga verður um Laugarnes laugardaginn 13. maí 2017. Leiðsögumaður er Guðfinna Ragnarsdóttir jarðfræðingur og ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins. Hún lýsir Laugarnesinu svona:

„Laugarnesið geymir sögu atburða og örlaga, biskupa og valda, mennta og menningar, stríðs og átaka, hernáms og fátæktar, sjúkdóma og erfiðleika, lista og listamanna og inn á milli, þótt ekki fari hátt, sögu alþýðunnar sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Þar er einnig að finna einu ósnortnu fjöruna á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi.“

Áhugasamir göngumenn mæta við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar klukkan 11:00.

Veðurspáin er ágæt, 11°C hiti, alskýjað og gola, 6 m/sek.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Göngur, Viðburðir
Aprílfundur Ættfræðifélagsins 2017

Aprílfundur Ættfræðifélagsins 2017

Aprílfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn fimmtudaginn 27. apríl 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, í Reykjavík.

Bernharð Haraldsson, kennari og fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, heldur erindi um Mannlíf og ábúendur í Skriðuhreppi hinum forna.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir!

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir
Marsfundur Ættfræðifélagsins 2017

Marsfundur Ættfræðifélagsins 2017

Marsfundur Ættfræðifélagsins verður haldinn  fimmtudaginn 30. mars 2017 kl. 20:00 í húsi Þjóðskjalasafns Íslands að Laugavegi 162, 3. hæð, Reykjavík.

Benedikt Jónsson, nýkjörinn formaður félagsins og starfsmaður Þjóðskjalasafns, segir frá manntölum og manntalsvef safnsins.

Það verður heitt á könnunni, meðlæti og allir eru velkomnir!

 

Mynd úr Manntalinu 1703 af upphafi fólkstals í Skógarstrandarhreppi í Snæfellsnessýslu.

 

Höfundur: aettadmin in Fréttir, Fundir, Viðburðir